Innlent

Segir að vegið sé að verkamönnum

Heimili starfsmannanna litháísku
Heimili starfsmannanna litháísku

"Mönnunum þykir að sér vegið og það er alveg ljóst að Íslendingar erlendis myndu ekki sætta sig við svona afskipti líkt og þessir menn hafa þurft að þola hér," segir Hjörleifur Jónsson, eigandi verktakafyrirtækisins H. Jónssonar.

Nú stendur yfir lögreglurannsókn á starfsmannamálum fyrirtækisins að beiðni Verkalýðsfélags Akraness en þar vinna nú níu Litháar og leikur grunur á að ekki sé löglega að málum þeirra staðið. Laufey Sigurðardóttir, heilbrigðisfulltrúi á Akranesi, gerði nýlega úttekt á húsakosti starfsmannanna.

"Aðstaða þeirra er í raun og veru ekki svo slæm en vinnuveitandi þarf að sækja um sérstakt starfsleyfi til að nota það í þessum tilgangi og þar sem þetta var iðnaðarhús áður þarf hann að sýna okkur fram á að hann hafi fengið það samþykkt sem íbúðarhúsnæði," segir hún.

Húsnæðið er um 300 fermetrar og voru þar áður skrifstofur og sólbaðsstofa. Hjörleifur segir að hann hafi fengið það samþykkt hjá skipulagsnefnd sem íbúðarhúsnæði árið 1999. Þar búi sex manns en þeir matist annars staðar en áður hafi níu manns búið þar.

"Hann hefur frest til mánudags að skýra sín mál," segir Laufey. Tveir af þeim starfsmönnum sem kallaðir voru til yfirheyrslna hjá lögreglu reyndust vera án tilskilinna leyfa.

"Ég sendi inn öll göng til að endurnýja leyfi þeirra en Útlendingastofnun sendi mér bréf og taldi einhvern formgalla á, ég var ekki eins vel að mér í þessum pappírsmálum og konan mín sem var vön að sjá um þetta en hún féll frá fyrr á árinu. Ég taldi leyfin vera í lagi svo þetta er spurning um formsatriði en ekki viljandi brot," segir Hjörleifur.

"Ég hef ekkert að fela, ég hef sýnt alla þá pappíra sem mér ber og þetta mál á sér því einhverjar aðrar rætur. Það versta er að starfsmönnum mínum er algjörlega misboðið en þeir vilja aðeins fá frið til að vinna. Flestir þeirra hafa verið hjá mér í sex ár og við erum orðnir góðir vinir allir saman og ég geri vel við þá. Tvisvar áður hefur verið gerð svona atlaga að fyrirtækinu og ekkert kom út úr því og ekkert mun kom út úr þessu heldur," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×