Erlent

Engar sannanir fundnar enn

Dick Marty, svissneski þingmaðurinn sem stýrir rannsókn Evrópuráðsins.
Dick Marty, svissneski þingmaðurinn sem stýrir rannsókn Evrópuráðsins.

Stjórnandi rannsóknarinnar sem nú er í gangi á vegum Evrópuráðsins á ásökunum um að bandaríska leyniþjónustan CIA reki leynifangelsi í Austur-Evrópulöndum, greindi frá því í gær að verið væri að safna upplýsingum um grunsamlegar ferðir 31 flugvélar um evrópska flugvelli.

Í þeim tilgangi væri meðal annars verið að reyna að komast yfir gerfihnattamyndir af vissum stöðum í Póllandi og Rúmeníu frá þeim tíma sem þessi flug áttu sér stað. Svissneski þingmaðurinn Dick Marty, sem stýrir rannsókninni, tjáði AP-fréttastofunni að Evrópuráðinu stæði "siðferðileg skylda" til að rannsaka ásakanirnar um meint leynifangelsi CIA.

Marty sagði að rannsóknarnefndin hefði farið fram á það við Eurocontrol, flugumferðaröryggismálastofnun Evrópu sem hefur höfuðstöðvar í Brussel, afhendi allar upplýsingar sem hún hefur um ferðir umræddra flugvéla. Listinn yfir flugvélarnar 31 er annars kominn frá Mannréttindavaktinni (Human Rights Watch) í New York.

Vitað er að nokkrar þessara flugvéla hafi millilent á Íslandi. Marty sagði engar óyggjandi sannanir liggja fyrir að svo stöddu um tilvist hinna meintu leynifangelsa en "ýmsar vísbendingar" kölluðu á nánari rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×