Erlent

Skipta hugsanlega úr F-35 í Eurofighter

Norðmenn af F-35 lista? Tom Burbage frá bandaríska hergagnaframleiðandanum Lockheed Martin heldur á hlut úr F-35 þotu með undirskriftum hershöfðingja níu þátttökulanda.
Norðmenn af F-35 lista? Tom Burbage frá bandaríska hergagnaframleiðandanum Lockheed Martin heldur á hlut úr F-35 þotu með undirskriftum hershöfðingja níu þátttökulanda.

Nýja vinstristjórnin í Noregi ætlar að endurskoða þátttöku Norðmanna í þróun nýju F-35 orrustuþotunnar sem Bandaríkjamenn hafa forgöngu um, og áskilur stjórnin sér rétt til að kaupa frekar evrópsku Eurofighter-þotuna. Norðmenn áforma að kaupa nýjar orrustuþotur árið 2008 fyrir andvirði 600 milljarða íslenskra króna.

Ríkisstjórn mið- og hægriflokka sem fór frá eftir kosningar í Noregi síðastliðið haust hafði heitið andvirði tíu milljarða króna til þróunar F-35 þotunnar, en að sögn Espen Barth Eide, aðstoðarvarnarmálaráðherra úr Verkamannaflokknum, hafa norsk fyrirtæki ekki fengið þá verkefnasamninga sem vonast var eftir og því full ástæða til að endurskoða þessa fjárfestingu.

Hann tjáði dagblaðinu Morgenbladet að ákvörðunin um orrustuþotukaupin yrði tekin á hagkvæmniforsendum, ekki pólitískum. Nýju þoturnar eiga að leysa af hólmi bandarískar F-16 þotur norska flughersins, sem komnar eru til ára sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×