Innlent

Krefjast upplýsinga

Íslensk stjórnvöld hafa krafið bandarísk yfirvöld um upplýsingar um hvort bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafi flutt meinta hryðjuverkamenn um íslenska lofthelgi og lent hér á landi. Grunur leikur á að vélar í fangaflutningum hafi lent að minnsta kosti níu sinnum hér á landi.

Málið komst í hámæli eftir að danski samgönguráðherrann svaraði í þinginu fyrirspurn um hugsanleg flug CIA um danska lofthelgi, en auk þess hefur Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður spurt Geir H. Haarde utanríkisráðherra um sama málið hvað varðar Ísland. Flug sem grunur leikur á að leyniþjónustan hafi farið og þá hugsanlega með fanga til yfirheyrslu á stöðum þar sem hægt væri að pynta þá. Að minnsta kosti 9 flug eru talin hafa verið á vegum CIA. Í október 2001 fór vél frá Keflavík til Álaborgar, í ágúst ári síðar kom vél til Keflavíkur frá Mumabai á Indlandi. Í nóvember í fyrra frá Keflavík til Duabai og svo sömu leið til baka daginn eftir. Mánuði síðar er talið að vél á vegum CIA hafi farið til Keflavíkur frá Billund og nokkrum dögum síðar vél frá Möltu, um Noreg til Keflavíkur. Í janúar á þessu ári hafi svo vél farið héðan til Billund og í mars hafi vél komið frá Instanbúl, til Kaupmannahafnar og til Keflavíkur og síðan til Kanada og í síðasta mánuði hafi svo vél grunuð um að vera á vegum CIA lent í Reykjavík á leið til Búdapest.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 var staðgengill sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kallaður á fund í utanríkisráðuneytið fyrir nokkrum dögum og krafinn svara um málið. Formleg svör hafa ekki borist en samkvæmt óformlegum svörum er talið ólíklegt að að minnsta kosti vélin sem var hér 8. mars hafi verið að flytja fanga því hún var að koma frá Kaupmannahöfn og fór héðan til Kanada.

Ragnheiður Árnadóttir aðstoðarmaður utanríkisráðherra sagði í samtali við Stöð 2 í dag verið væri að kanna hjá bandarískum stjórnvöldum hvort þessar upplýsingar eigi við rök að styðjast, ekki væri í raun vitað hvort að vélarnar hafi ve r ið á vegum bandarísku leyniþjónustunnar og heldur ekki hvort að þær hafi þá verið í fangaflutningum. Hún sagðist ekki hafa upplýsingar um að staðgengill bandaríska sendiherrans hafi verið kallaður í utanríkisráðuneytið. Ef flug er á vegum stjórnvalda ber að hennar sögn að sækja um yfirflugs og lendingarheimild, en öðru máli gegnir um borgaralegt flug. Að sögn aðstoðarmannsins er svara beðið, en þó sé vitað að vélin sem hafði viðkomu hér á landi 8. mars hafi verið á leið til Kanada og aðeins tveir hafi verið um borð. Sturla Böðvarsson, samgöngumálaráðherra, var í dag á Ísafirði og sagði hann sitt ráðuneyti ekki hafa upplýsingar um umrædd flug eða farþega. Hann hefði ekki upplýsingar þar sem hann var staddur á Ísafirði um hvað væri á ferðinni. Auðvitað gæti hann þó ekki kosið að fangar væru fluttir á milli landa með þeim hætti sem fréttir væru að segja að væri gert.

Íslandsdeild Amnesty International lýsir þungum áhyggjum af fréttum af hugsanlegu fangaflugi og minnir á a ð algert bann gildi við pyntingum sem og að flytja fanga til ríkis þar sem hætta sé á að hann verði pyntaður. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir hjá Amnesty segir það koma illilega við sig að miklar líkur séu á að slíkar vélar hafi lent hér. Þau telji nauðsynlegt að óháð rannsókn fari fram á þeim upplýsingum sem fram hafi komið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×