Innlent

Missti báða fæturna í hörmulegu bílslysi

Særún Sveinsdóttir
Særún Sveinsdóttir
„Ég held ég hafi aldrei misst meðvitund. Lögreglumennirnir töluðu við mig þar sem ég lá í götunni eftir áreksturinn. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu alvarlega ég var slösuð en ég vissi að yfir mér var þungt farg. Lögreglumennirnir sögðu mér síðan að þeir þyrftu að lyfta bílnum ofan af mér,“ segir Særún Sveinsdóttir Williams, sem missti báða fætur, rétt fyrir ofan hné, í hörmulegu bílslysi í Omaha í Nebraskaríki í Bandaríkjunum. Slysið varð á fjölfarinni hraðbraut snemma morguns fyrir réttri viku.

Slysið varð með þeim hætti að Særún ók pallbíl, sem hlaðinn var pokum með haustlaufum á leið til vinnu. Hún varð þess skyndilega vör að pokar höfðu fallið af palli bílsins, þannig að hún afréð að stöðva hann og kippa pokunum aftur upp á pallinn. Þegar hún var rétt um það bil að ljúka verkinu varð hún fyrir bíl sem kom aðvífandi. Svo einkennilega vildi til að bílstjóri þess bíls, Kenneth Cooks, er samstarfsmaður Særúnar hjá flutningafyrirtækinu Deffenbaugh.

Cooks steig út til þessa að reyna að aðstoða Særúnu og vísa annarri umferð frá henni, þar sem Særún lá á götunni, þegar kona keyrði á kyrrstæðan bíl Cooks, með þeim afleiðingum að bíllinn kastaðast á Cooks sem varð til þess að hann kastaðist um tuttugu metra og hlaut alvarlega höfuðáverka. Bíll Cooks endaði svo á Særúnu þar sem hún lá á götunni. Særún telur að það hafi verið þá sem hún missti fæturna. Bílstjóri þriðja bílsins slapp ómeiddur.

„Ég hef það sæmilegt miðað við aðstæður,“ segir Særún en hún átti að fara í skurðaðgerð í gær, eina af mörgum sem eru fyrirhugaðar. Síðan tekur við endurhæfing sem mun vara næstu mánuði. Særún er einstæð fimm barna móðir og eru þrjú barnanna búsett hjá henni. Hún hefur verið búsett í Omaha frá árinu 1993.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×