Innlent

Neyðarlínan synjaði konunni um aðstoð

Það gengur kraftaverki næst að kona skyldi sleppa lifandi þegar tengivagn flatti út bíl hennar í Leirársveit í gærkvöldi. Að sögn móður hennar hafði Neyðarlínan synjað henni um aðstoð áður en óhappið varð.

Konan, sem var ein á ferð, var stödd í Skorholtsbrekku í Leirársveit um sjöleytið í gærkvöldi þegar hún missti stjórn á bíl sínum með þeim afleiðingum að hún lenti utan vegar. Hún hringdi þá í Neyðarlínuna til að óska eftir aðstoð. Þar var hún spurð hvort hún væri slösuð sem hún svaraði neitandi. Þá segist hún hafa fengið þau svör að best væri að hún hringdi sjálf á dráttarbíl til að komast aftur upp á veginn. Þegar hún kvaðst eiga erfitt með að sætta sig við það svar gaf Neyðarlínan henni samband við lögregluna í Borgarnesi. Í sama mund kom maður akandi sem bauðst til að reyna að draga hana upp á veg þannig að hún sleit símtalinu. Sú tilraun tókst hins vegar ekki og ákvað konan þá að biðja unnusta sinn að ná í sig, sem hún og gerði.

En meðan hún beið hans kom flutningabifreið akandi fram hjá og tengivagn, sem flutningabíllinn dró, valt undan vindhviðu og varð bíll konunnar undir tengivagninum. Bifreið konunnar lagðist bókstaflega saman og þurftu björgunarmenn að beita klippum til að ná henni úr flakinu. Hún var flutt á sjúkrahúsið á Akranesi þar sem hún gekkst undir rannsókn en reyndist hafa sloppið ótrúlega vel miðað við aðstæður, og þykir það reyndar ganga kraftaverki næst, en hún kvartaði aðeins undan lítils háttar höfuðverk. Konan fékk hins vegar mikið taugaáfall og mun fá áfallahjálp í dag.

Þegar haft var samband við Þórhall Ólafsson, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, í morgun til að spyrjast fyrir um símtal konunnar, m.a. hvort henni hafi verið bent á að hringja sjálf á dráttarbíl, sagðist hann ekki geta gefið upplýsingar um einstök mál en telur að málið hafi verið unnið með eðlilegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×