Innlent

Byrlaði fórnarlambi ólyfjan og nauðgaði

Stefán H. Ófeigsson. Á sér engar málsbætur.
Stefán H. Ófeigsson. Á sér engar málsbætur.

Bæjarferð tveggja átján ára stúlkna síðustu helgina í nóvember í fyrra endaði með skelfingu þegar önnur þeirra varð fyrir svívirðilegri árás af hendi 27 ára gamals Reykvíkings, Stefáns H. Ófeigssonar. Hann var á fimmtudag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga stúlkunni, en grunur leikur á að hann hafi byrlað henni einhvers konar nauðgunarlyfi.

Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 900 þúsund krónur í miskabætur og tæpar 590 þúsund krónur í sakarkostnað. Dómurinn taldi framburð stúlk­unnar trúverðugan og Stefáns að sama skapi ekki, en hann harð­neitaði fyrir dómi að hafa átt við hana kynferðisleg samskipti. Hann þóttist hjá lögreglu geta full­yrt að hafa ekki laumað neinu í drykk stúlkunnar og vissi upp á hár hversu mikið hafði verið drukk­ið af hvítvíni sem hann bauð upp á, en bar fyrir sig minnisleysi sökum ölvunar um önnur atriði.

"Ég man ekki eftir þessu. Þar af leiðandi er illmögulegt fyrir mig að útiloka eitthvað," sagði hann þegar hann spurður um hvort hann vildi kannast við að hafa haldið stúlkunni fastri og troðið fingri í endaþarm hennar þegar hún ætlaði að fara heim. Vinkona stúlkunnar þurfti að fara fyrr þannig að hún varð ein eftir hjá Stefáni umrædda nótt. Hann höfðu vinkonurnar hitt þegar langt var liðið á nótt. Hann kynnti sig sem verkfræðing og bauð þeim heim í hvítvín.

Í dóminum kemur fram hvernig stúlkan brast í grát þegar hún þurfti að rifja upp hvernig hann í framhaldinu nauðgaði henni og setti lim sinn bæði í leggöng hennar og endaþarm. Þá kemur fram að minni hennar af atburðum er gloppótt og hún sýndi einkenni þess eftir árásina að vera undir áhrifum lyfja. Að kvöldi næsta dags sagði hún móður sinni frá því að hana grunaði að sér hefði verið nauðgað og fóru þær saman á neyðarmóttöku. Í dómnum kemur fram að Stefán hafi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefðu getað haft á refsingu hans.

"Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða var sérlega ruddafengið og gróft og einkenndist af einbeittum ásetningi. Þó svo brotaþoli gæfi ákærða skýrlega til kynna að hann meiddi hana og að kynferðislegt athæfi hans væri algerlega gegn hennar vilja skirrðist ákærði ekki við að beita brotaþola ofbeldi. Ákærði á sér engar málsbætur," segir í dómnum, en hann kváðu upp dómararnir Ingveldur Einars­dóttir, Páll Þorsteinsson og Símon Sigvaldason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×