Innlent

Hitaveita í stað olíukyndingar

Agnar Gunnarsson oddviti segir enga minnimáttarkennd í Akrahreppsbúum þrátt fyrir mannfæðina. Nú er verið að leggja heitt vatn í nær hvert hús og senn kemur ljósleiðarinn í þessa sveit skáldsins frá Bólu.
Agnar Gunnarsson oddviti segir enga minnimáttarkennd í Akrahreppsbúum þrátt fyrir mannfæðina. Nú er verið að leggja heitt vatn í nær hvert hús og senn kemur ljósleiðarinn í þessa sveit skáldsins frá Bólu.

Stórframkvæmdir fara nú fram í Akrahreppi, einu fámennasta sveitarfélagi landsins, en þar er verið að leggja hitaveitu. "Búið er að koma heimtaug í nítján hús. Þó er ekki búið að hleypa vatni ennþá á en menn vonast til að geta baðað sig á jólunum með vatni úr öðru sveitarfélagi," segir Agnar Gunnarsson oddviti.

Hingað til hafa menn hitað vatnið með olíu eða rafmagni. Það eru Skagafjarðarveitur sem sjá að mestu um verkið ásamt hreppnum. Meira stendur til í Akrahreppi því með hitaveitulögninni á að leggja rör fyrir ljósleiðara. Oddvitinn vill þó ekki giska á það hvenær hrepparar verði komnir í hraðvirkt netsamband.

215 íbúar búa í hreppnum og segist oddvitinn ekki vera í neinum sameiningarhugleiðingum enda var tillaga um að sameinast sveitar­félaginu Skagafirði felld með miklum mun í kosningunum 8. október síðastliðinn. Rúmlega áttatíu prósent kjósenda í Akrahreppi sögðu þá nei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×