Innlent

Svör Bandaríkjamanna eru ófullnægjandi

Fangaflugvél í Reykjavík. Hér sést flugvélin sem lenti í Reykjavík í gær. Hún er í eigu fyrirtækisins Devon Holding and Leasing en fullyrt hefur verið að fyrirtækið sjái um fangaflug fyrir bandarísku leyniþjónustuna.
Fangaflugvél í Reykjavík. Hér sést flugvélin sem lenti í Reykjavík í gær. Hún er í eigu fyrirtækisins Devon Holding and Leasing en fullyrt hefur verið að fyrirtækið sjái um fangaflug fyrir bandarísku leyniþjónustuna.

"Að mínum dómi eru þessi svör alls ekki fullnægjandi enda er þeirri spurningu ósvarað hvort umræddir flutningar hafi átt sér stað eða ekki," sagði Geir H. Haarde utanríkisráðherra á Alþingi í gær.

Orð Geirs voru í svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um hvort stjórnvöld ætluðu sér að koma í veg fyrir flug um íslenska lofthelgi með fanga sem væru pyntaðir við yfirheyrslur.

Helgi Hjörvar gerði athugasemd við svör utanríkisráðherra og sagði þjóðina meðseka í málinu vegna framgöngu og þátttöku stjórnvalda í innrásinni í Írak. "Er ráðherrann svo hræddur við að herinn sé að fara að hann þorir ekki að anda á Bandaríkjamenn? Eða er það ­kannski af því að við erum meðsek?" spurði Helgi.

Á svipuðum tíma lenti á Reykjavíkurflugvelli flugvél sem er í eigu Devon Holding and Leasing. Fréttastofa Stöðvar 2 fullyrti í fréttatíma í gærkvöldi að fyrirtæki þetta stundaði flutninga á föngum fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA. Áhöfn vélarinnar vildi ekki tjá sig við fréttamanninn.

Í frétt í þýska dagblaðinu Die Tageszeitung fyrr í vikunni er fullyrt að vitað sé um 67 lendingar meintra CIA-fangaflutningavéla á Íslandi, en íslensk stjórnvöld vilji ekkert við þær kannast. Að sögn blaðsins er Ísland aðalmillilendingarstaður þessara flugvéla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×