Lífið

Fimmtán ára sinfónía

Oliver Kentish hljómsveitarstjóri
stjórnar frumflutningi.
Oliver Kentish hljómsveitarstjóri stjórnar frumflutningi.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna heldur upp á fimmtán ára afmæli sitt með afmælistónleikum í Grafarvogskirkju á morgun klukkan 17.30. Á tónleikunum verður frumflutt tónverk sem Þórður Magnússon samdi að beiðni hljómsveitarinnar fyrir þetta tilefni. Tónverkið ber nafnið Sinfonia.

Þá verður fluttur konsert í a-moll fyrir fiðlu og hljómsveit eftir Antonio Vivaldi. Einleikarar verða þrír, allir á aldrinum 10-13 ára, þau Sindri Snær Einarsson, Inga Þorsteinsdóttir og Unnur Bjarnadóttir. Þau eru nemendur í Suzuki-tónlistarskólanum og leika hvert sinn kafla konsertsins. Að lokum leikur hljómsveitin fimmtu sinfóníu Tsjaíkofskís. Hljómsveitin er skipuð fólki sem flest hefur langt tónlistarnám að baki en hefur atvinnu af öðru en hljóðfæraleik.

Stjórnandi á tónleikunum verður Oliver Kentish. Sinfóníuhljómsveit áhugamanna var stofnuð haustið 1990 að frumkvæði Ingvars Jónassonar, sem var aðalstjórnandi þangað til síðasta haust að Oliver Kentish tók við hlutverki hans. Í sveitinni voru í byrjun aðeins strengjaleikarar og haldnir voru tvennir tónleikar fyrsta árið. Fljótlega jukust umsvifin og sveitin varð fullskipuð sinfóníuhljómsveit. Síðustu árin hafa að jafnaði verið haldnir sjö tónleikar á ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.