Lífið

Leitin að Meistaranum hefst í dag

Logi Bergmann. Þykir vera ansi ógnandi á þeim myndum sem voru teknar en segir að það hafi ekki verið ætlunin.
Logi Bergmann. Þykir vera ansi ógnandi á þeim myndum sem voru teknar en segir að það hafi ekki verið ætlunin.

Í dag fara fram próf fyrir nýjan spurningaþátt Stöðvar 2, Meistarann. Verða þau á fjórum stöðum: í Háskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Egilsstöðum og Ísafirði auk Hagaskóla. Ekki þarf að skrá sig á neinn hátt heldur eingöngu mæta á svæðið og svara þeim spurningum sem lagðar eru fyrir en það kostar ekkert að taka þátt.

Þátttaka fyrir sjónvarpsþætti hefur verið með eindæmum góð að undanförnu og sagðist Logi Bergmann Eiðsson því vera bjartsýnn á framhaldið.

"Viðbrögðin hafa verið góð og við erum með allt klárt, segir spyrillinn. Spurningarnar eru komnar í hús og öll gögn tilbúin", bætir hann við. Logi getur ekki leynt eftirvæntingu sinni enda segist hann aldrei hafa verið jafn spenntur fyrir neinu í sjónvarpi.

"Það má kannski líkja þessu við fyrstu Idol - þáttaröðina því við rennum blint í sjóinn", útskýrir hann og bætir við að fyrirvarinn sé kannski ekki mikill.

Mikil leynd hefur hvílt yfir spurningunum en Logi segir að þær verði ekki á neinn hátt svínslegar.

"Þú getur verið spurður að því hver sé formaður verkamannaflokksins í Noregi, hver málaði Ópið eða hver sé söngvarinn í Coldplay", útskýrir Logi og keppnin sé fyrir alla því hún byggist ekki síður á heppni en á gáfum.

Sá sem stendur uppi sem sigurvegari mun hljóta fimm milljónir en allir þeir sem komast í þáttinn verða leystir út með einhvers konar gjöfum.

Að undanförnu hafa birst myndir af Loga í stellingum fyrir þáttinn. Haft hefur verið á orði að hann líkist Magnúsi Magnússyni sem stjórnaði Mastermind við góðan orðstír en Logi segir það ekki hafa verið ætlunina. Þá hefur einhverjum einnig þótt hann ógnandi.

"Það er nú alls ekki tilgangurinn en við vildum hafa smá dulúð og ég held að Ara Magg hafi tekist það".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.