Innlent

Fólk er haft að féþúfu

Sigurður Guðmundsson landlæknir telur að DNA-heilarar séu að slá ryki í augu fólks með yfirlýsingum um að geta læknað sjúkdóma.
Sigurður Guðmundsson landlæknir telur að DNA-heilarar séu að slá ryki í augu fólks með yfirlýsingum um að geta læknað sjúkdóma.

Sigurður Guðmundsson landlæknir segir ekki heila brú í því að hægt sé að laga viðhorf og lækna sjúkdóma með DNA-heilun, lýsingin á henni gangi gegn allri þekkingu, bæði í almennri líffræði og samsetningu DNA og RNA, og standist hreinlega ekki. Það gildi einu hvort um sé að ræða breytingu á viðhorfum eða lækningu á líkamlegum kvillum.

"Þeir sem halda fram að með þessu sé hægt að bæta heilsu og lækna sjúkdóma, allt frá smærri kvillum í alvarlega sjúkdóma, eru að slá ryki í augu fólks og vekja falskar vonir. Það er alvarlegt mál, sérstaklega þegar um er að ræða fólk með alvarlega sjúkdóma," segir Sigurður.

Stór hluti sjúklinga, þar á meðal um 90 prósent Íslendinga með krabbamein, leitar í óhefðbundnar lækningar. Sumar aðferðir óhefðbundinnar meðferðar segir Sigurður að séu gagnlegar, sérstaklega þær sem lúta að návist og nærvist, samhygð og snertingu en hann telur fáránlegt að hægt sé að breyta genum með heilun.

"Í DNA-heilun er verið að stíga skrefið miklu lengra en í öðrum óhefðbundnum lækningum og beinlínis að halda fram ósannindum. Ef gjöld eru tekin fyrir þessa meðferð þá er verið að hafa fólk að féþúfu á fölskum forsendum og þá er þetta klassísk skilgreining á skottulækningum. Ég vara fólk við að setja pening í þetta. Það er margt annað sem gagnast betur," segir hann og telur að varla trúi nokkur maður því að heilarar geti endurraðað erfðaefninu.

Sigurður telur að ekki sé heldur hægt að lækna neikvætt viðhorf eða breyta viðhorfum með því að hafa áhrif á erfðamengið. Hægt sé að breyta uppbyggingu erfðaefnisins með erfðalækningum og setja þá inn nýja búta af nýju DNA inn í erfðamengi þess sem þjáist af sjúkdómi en enginn hafi verið læknaður til langtíma með slíkum aðferðum.

Starfsmenn Landlæknisembættisins hafa ekki skoðað starfsemi þessarar nýju stéttar DNA-heilara. Sigurður kveðst hafa rekist á síðu um DNA-heilun fyrir nokkrum mánuðum. Vel komi til greina að skoða þessa starfsemi nánar ef verið sé að féfletta fólk. Það verði þá gert með tilliti til laga um skottulækningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×