Lífið

Sextug og kynþokkafull sem aldrei fyrr

Susan Sarandon - Án nokkurs vafa ein allra besta leikkona Hollywood og slær hvergi slöku við.
Susan Sarandon - Án nokkurs vafa ein allra besta leikkona Hollywood og slær hvergi slöku við.

Það er vafalaust allt í senn martröð og draumur fyrir ungar leikkonur að fá hlutverk á móti Susan Sarandon. Draumur, vegna þess að hún er meðal bestu leikkvenna kvikmyndaiðnaðarins og martröð af því henni tekst yfirleitt að skyggja á þær með suðuríkjaþokka sínum og lífsreynslu. Þannig fór að ­minnsta kosti fyrir mótleikkonum hennar í Alfie þar sem hver fegurðardísin af fætur annarri fölnaði við hliðina á hinni tæplega sextugu Sarandon.

Leikkonan á að baki ótrúlegan feril í kvikmyndaborginni. Hún fór ásamt eiginmanni sínum, Chris Sarandon, í áheyrnarpróf fyrir kvikmyndina Joe í New York. Þau voru þá nýútskrifuð úr kaþólskum háskóla og vildu reyna fyrir sér í stórborginni. Sarandon hreppti hlutverkið en Chris, sem hafði lagt leiklist fyrir sig í skólanum, var hafnað.

Fimm árum síðar var Sarandon á allra vörum þegar hún heillaði Frank-N-Furter upp úr skónum í költ-snilldinni Rocky Horror Picture Show. Sarandon gekk þó erfiðlega að slá almennilega í gegn og það var ekki fyrr en fimmtán árum eftir ævintýrið með klæðskiptingnum að leikkonunni tókst að koma sér almennilega á framfæri. Þá lék hún á móti Kevin Costner og Tim Robbins í Bill Durham. Sarandon sagði síðar að hún og Kevin Costner hefðu beitt "öllum" brögðum til að hlutverkið yrði hennar.

Bill Durham hafði einnig mikil áhrif á einkalíf Sarandon því við tökur á myndinni kynntist hún núverandi eiginmanni sínum, Tim Robbins. Sarandon ól honum tvö börn og í stað þess að hella sér aftur í kvikmyndirnar þá velur hún sér nú hlutverk sem henni þykja sér vera samboðin. Hefur hún túlkað margar af eftirminnilegustu kvenpersónum kvikmyndasögunnar og nægir þar að nefna systur Helenu í Dead Man Walking og Louise í Thelma & Louise.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.