Innlent

800 milljónum varið í hestinn

Ráðherra í reiðtúr. Guðni Ágústsson í reiðtúr í Almannagjá.
Ráðherra í reiðtúr. Guðni Ágústsson í reiðtúr í Almannagjá.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur varið nær 800 milljónum króna í verkefni tengd íslenska hestinum í ráðherratíð sinni. Það þýðir að árlega, frá árinu 2000, hafi um 130 milljónum af opinberu fé verið veitt í íslenska hestinn. Til viðbótar við þessar 800 milljónir er fjárveiting frá samgönguráðuneytinu vegna reiðvegagerðar. Stærstu upphæðirnar fóru í hrossabraut Hólaskóla og ráðunaut, sem sér meðal annars um skýrsluhald, eða rúmar 270 milljónir í hvort. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Eiðfaxa.

Í viðtali við blaðið segir Guðni að árangurinn af stuðningi ríkisins komi skýrast fram í þeim miklu framförum í ræktun og fagmennsku sem við blasi á landsmótum og heimsmeistaramótum. "Ljóst er að miklir peningar hafa farið í málaflokkinn, en ég hef trú á því að þeir hafi skilað sér margfalt til baka," segir Guðni. Hann segir að inni í tölunni séu meðal annars fjárveitingar til kynbótastarfs í hrossarækt og dýralæknis hrossasjúkdóma svo og stuðningur við Hestamiðstöð Íslands í Skagafirði og átaksverkefni í hrossarækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×