Innlent

Kona særðist á fæti í sprengingu í Skeifunni

Á vettvangi sprengingarinnar Kona hafði brugðið sér út fyrir til að reykja og gekk fram og til baka fyrir framan bíla á planinu þegar sprengja sprakk skyndilega undir einum þeirra, við annað afturhjólið.
Á vettvangi sprengingarinnar Kona hafði brugðið sér út fyrir til að reykja og gekk fram og til baka fyrir framan bíla á planinu þegar sprengja sprakk skyndilega undir einum þeirra, við annað afturhjólið.

Kona hlaut skeinur og mar á fæti þegar sprengja sprakk undir mannlausum bíl fyrir utan brauðgerðina Mylluna í Skeifunni í Reykjavík um klukkan hálf þrjú í fyrrinótt. Að sögn lögreglu slapp konan nokkuð vel miðað við aðstæður en bíllinn skemmdist nokkuð að neðan og af því ráðið að sprengjan hafi verið nokkuð öflug.

Bíllinn stóð ásamt öðrum fyrir utan vinnustaðinn, en þar er unnin er vaktavinna. Konan, sem er starfsmaður Myllunnar, hafði brugðið sér út fyrir til að reykja og var á gangi fram hjá bílnum þegar sprengingin varð og í hana þeyttust sprengjubrot.

Hún var flutt á slysadeild til aðhlynningar og kallaðir til sprengjusérfræðingar Ríkislögreglustjóra auk lögreglumanna frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík.

Hörður Jóhannesson, yfir­lög­reglu­þjónn í Reykjavík, segir ekkert benda til þess að sprengingunni hafi verið beint gegn konunni, vinnustaðnum eða eiganda bílsins. "Allar líkur eru á að þetta hafi verið heimagerð sprengja. Svo er ekkert langt síðan kvartað var undan sprengingum í þessu hverfi seint um kvöld eða nótt. Þá var talið að einhverjir krakkar hefðu verið að fíflast við Grensásveg, nokkuð ofar," segir hann og áréttar að konan hafi verið fyrir tilviljun stödd við bílinn þegar sprengjan sprakk. "Þetta er heldur ekki á neinum brottfarar- eða komutíma."

Hörður sagðist vongóður um að lögregla myndi hafa upp á sprengjuvarginum, en í gær var sökudólgurinn enn ófundinn. Til stendur frekari rannsókn á sprengiefninu sem komið var fyrir undir bílnum. "Við verðum að kanna hvaða efni þetta er."

Kristján Theodórsson, fram­kvæm­da­stjóri á upplýsinga- og fram­leiðslu­sviði Myllunar, taldi af og frá að sprengingin gæti verið til marks um harðnandi brauðstríð.

"Nei, það held ég engum hafi dottið í hug. Við hins vegar vitum afskaplega lítið um þetta, málið er bara hjá lögreglunni," sagði hann, en bætti þó við að á staðnum teldi margur þó líklegt að sprengingin væri til komin af einhverjum barnaskap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×