Innlent

Eðlilegt að verðlag hækki

Finnur Árnason, forstjóri Haga
telur óhjákvæmilegt að verð á matvöru hækki eftir lækkun síðustu mánaða.
Finnur Árnason, forstjóri Haga telur óhjákvæmilegt að verð á matvöru hækki eftir lækkun síðustu mánaða.

Mikið tap varð á rekstri Haga á fyrri helmingi rekstrarárs félagsins og nemur það 708 milljónum króna. Hagar eiga meðal annars Bónus, Hagkaup og 10-11. Finnur Árnason, forstjóri Haga, rekur skýringar tapsins til harðrar samkeppni á matvörumarkaði en eins og margir muna ríkti um skeið óvægið verðstríð milli lágvöruverslana þar sem mjólkin var gefin og fleira í þeim dúr. Spurður hvort tapinu verði velt á herðar neytenda segir Finnur það ekki gert enda tapið liðið og sé í raun tilkomið vegna aðgerða sem voru neytendum til hagsbóta.

"Matvöruverð lækkaði um tíu prósent frá mars til september á sama tíma og kostnaðarliðir hækkuðu. Það er því eðlilegt að verðlag hækki að einhverju leyti eftir þessa dýfu." Mat Finns er að matvöruverslunin í landinu hafi verið rekin með tapi undanfarna mánuði og telur hann einsýnt að svo verði ekki áfram. Á hinn bóginn telur Finnur að nú sem fyrr renni allt of hátt hlutfall matarverðsins í sjóði ríkisins. "Álögur á matvöru eru í mörgum þrepum. Þær eru í almennum tollum, magntollum, vörugjöldum og virðisaukaskatti. Þetta gerir það að verkum að í mörgum tilfellum er yfir helmingur vöruverðsins opinber gjöld."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×