Erlent

Svarar gagnrýni fullum hálsi

Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, segist viss um að hafa tekið rétta ákvörðun þegar hann jók öryggisgæslu til muna í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar í gær og í fyrradag eftir að hafa fengið einhvers konar ábendingu um yfirvofandi hryðjuverk. Hann hafi ekki hrætt borgarbúa að óþörfu. Bloomberg lét auka öryggisgæslu í neðanjarðarlestakerfi borgarinna gríðarlega í fyrrakvöld, og bað borgarbúa um að vera á varðbergi vegna hótana um sprengjuárásir. Embættismenn í Washington hafa gagnrýnt hann fyrir að hafa brugðist of hart við og hafa þannig hrætt borgarbúa að óþörfu. Lögreglumenn og þjóðvarðliðar hafa leitað í farangri farþega og beðið þá að láta vita um grunsamlegar mannaferðir eða pakka og töskur. Fólk hefur verið beðið um að sleppa því að ferðast með skjalatöskur og og bakpoka, og þeir sem nota hjólastóla voru jafnvel beðnir um að láta það vera að nota neðanjarðarlestakerfið ef þeir hefðu nokkur tök á. Fjórar og hálf milljón manna notar lestakerfið á hverjum degi og fækkaði þeim lítið þrátt fyrir aðvörunina. Bloomberg borgarstjóri hefur svarað gagnrýninni fullum hálsi - hann geri áreiðanlega mistök eins og aðrir, en í þessu efni, þá vilji hann mun frekar gera þau mistök að vera of varkár en að láta alvarlega hótun eins og vind um eyru þjóta og þurfa svo að jafnvel að horfa upp á hrikalegar afleiðingar hryðjuverkaárása, sem hefði kannski mátt koma í veg fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×