Lífið

Evróvisjón: Úkraínumenn bjartsýnir

Úkraínumenn eru bjartsýnir á að framlag þeirra í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva tryggi þeim sigur, annað árið í röð. Rúslana sem sigraði í fyrra segir lagið hafa mikla möguleika og ríkir mikil spenna fyrir úrslitakeppnina sem hófst fyrir stundu. Evróvisjón-söngvakeppnin í kvöld er sú fimmtugasta í röðinni. Mikil stemning er í höfuðborginni, Kænugarði, og fulltrúar þeirra þjóða sem stíga á sviðið í íþróttahöllinni í borginni segja mikla spennu ríkja fyrir úrslitakvöldið. Meðal þeirra eru fulltrúar Úkraínu, sem mynda hljómsveitina „Greenjolly“, en miklar vonir eru bundnar við framlag þeirra. Það er þó líklegt að úrslitin komi á óvart, eins og í forkeppninni í fyrradag þegar Ísland, með Selmu Björnsdóttur í fararbroddi, komst ekki áfram. Rúslana, sigurvegarinn frá því í fyrra, er bjartsýn fyrir hönd þjóðar sinnar. „Hér hafa orðið miklar breytingar. Himininn er nýr, stjörnurnar eru nýjar. Við höfum nýjar hugmyndir, nýjar tilfinningar og nýja möguleika. Við eigum nýtt land,“ segir Rúslana og vísar þar til sögulegra kosninga í landinu á síðasta ári. Á Netinu gengur nú manna á milli ný útgáfa af framlagi Íslands í ár í heldur þjóðlegri kantinum. Spurning hvort það hefði tryggt okkur sæti í aðalkeppni Evróvisjón í kvöld.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.