Erlent

Fogh Rasmussen í klemmu

Talsmenn atvinnulífsins í Danmörku ráðast harkalega á Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra fyrir að krefjast þess að ráðherrar í ríkisstjórn hans geri grein fyrir fjármálum sínum og maka sinna. Þegar eiginmaður Connie Hedegaard umhverfisráðherra neitaði að gefa upplýsingar um fjármál sín var ljóst að forsætisráðherrann var kominn í óvænta stöðu. Lögspekingar bentu á að honum væri mögulega nauðugur einn kostur að reka Hedegaard úr ríkistjórninni en hann hefur enn ekki tekið af skarið. Í gær sendu talsmenn atvinnurekenda frá sér harðorða yfirlýsingu þar sem Fogh Rasmussen var gagnrýndur fyrir að gera atvinnulífið tortryggilegt með upplýsingaskyldunni. Dönsku bændasamtökin hafa tekið í svipaðan streng. Framkvæmdastjóri einna samtaka atvinnurekenda hvatti Fogh Rasmussen í gær til að draga kröfuna til baka. "Þetta er óþarfa forvitni af hálfu forsætisráðherrans og nokkuð sem slúðurdálkar dagblaðana kynnu einir að hafa áhuga á," sagði hann í samtali við Ritzau-fréttastofuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×