Innlent

Ekki japanskt innanríkismál

Guðmundur G. Þórarinsson, einn fulltrúi í Fischer sendinefndinni í Japan, segir að Suzuki, lögfræðingur skákmeistarans hafi fengið þau svör eftir óformlegum leiðum, að ef hann fengi ríkisborgararétt þá yrði honum sleppt. Guðmundur segir jafnframt að því hafi verið lýst yfir á blaðamannafundi í Tókýó í gær, að íslenska sendinefndin teldi líklegt að íslensk stjórnvöld myndu leita skýringa á því að maður með fullgilt íslenskt vegabréf fengi ekki að fara. Hann gefur lítið fyrir áhyggjur íslenskra stjórnvalda um að með afskiptum íslendinga sé verið að hlutast til með japönsk innanríkismál. "Hann er ekki japanskur ríkisborgari, heldur ferðamaður sem er stöðvaður. Það er óþarfa viðkvæmni hjá íslendingum ef þeir telja að þeir séu með þessu að skipta sér af japönskum innanríkismálum." Fischer átti afmæli í gær og fengu Sæmundur Pálsson, Garðar Sverrisson og Mioko Watai að heimsækja hann, en einungis tala við hann í gegn um gler. Fischer fékk ekki að taka á móti rósavendi sem unnusta hans ætlaði að færa honum. Guðmundur, Garðar og Einar S. Einarsson eru væntanlegir heim í kvöld. Sæmundur mun vera í Japan fram yfir helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×