Innlent

Hótelrekstur aflagður í Valhöll?

Hótel Valhöll á Þingvöllum hefur verið lokað frá áramótum. Þingvallanefnd vill leggja hótelrekstur af að mestu en forsætisráðuneytið hefur hins vegar boðið reksturinn út að nýju, til hausts 2010. Mikil rómantík er tengd Hótel Valhöll á Þingvöllum, kannski ekki síst hjá eldri kynslóðinni. Elías Einarsson rak Hótel Valhöll í tæp þrjú ár en hætti eftir jólin í fyrra, nokkru áður en samningstíma hans lauk, því hann var búinn með fjármagnið sem hann gat lagt í þetta og rúmlega það. Elías telur hins vegar að það sé grundvöllur fyrir hótelrekstri á Þingvöllum. Það þurfi fjármagn og ekki síst tíma, það er, langtímasamning um reksturinn. Nokkru eftir að Elías hætti auglýsti ríkið eftir öðrum rekstraraðila og rann umsóknarfrestur út í síðustu viku. Fjölmargir komu að skoða en aðeins einn lét slag standa og sótti um. Ekki fer á milli mála að heilmikið þarf að gera við byggingu Valhallar ef úr á að verða fyrsta flokks hótel.   Óskað var eftir tillögum um framtíðaruppbyggingu Valhallar og mun sá sem sótti um funda með málsaðilum í forsætisráðuneytinu á morgun og athuga hvort fallist verði á þær. Þingvallanefnd leggur til í sinni stefnumótun fyrir þjóðgarðinn að hótelrekstur verði að mestu aflagður, en í Valhöll geti verið veitingasala og aðstaða fyrir ráðherra og þingmenn að funda og taka á móti gestum. Halldór Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, segir framtíð hótelsins vera til skoðunar en samningurinn sem nú er í boði gildir til hausts 2010, svo ef samningar nást mun líklega lítið breytast fram að því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×