Sport

Verður ábyggilega mikið að gera

,,Ég á von á því að það verði nóg að gera hjá mér í markinu dag. Ég hef æft eins og vitleysingur í vetur og er í ágætri spilaæfingu eftir marga leiki í Skandinavíudeildinni með Våleranga, þessi deild hefur verið mikil lyftistöng," sagði Árni Gautur Arason, landsliðsmarkvörður við Fréttablaðið í Zagreb í gær en Íslendingar mæta Króatíu í undankeppni HM kl. 17 í dag. Króatía hefur 7 stig eftir þrjá leiki en Ísland eitt eftir fjóra leiki. Árni Gautur hefur varið frábærlega vel á æfingum með landsliðinu í Zagreb. Hann segir góðan anda í íslenska hópnum og landsliðið hafi stillt saman strengina eftir áfallið að missa landsliðsfyrirliðann Eið Smára Guðjohnsen vegna meiðsla. Aðrir leikmenn liðsins muni axla ábyrgðina í staðinn. Ásgeir Sigurvinsson, landsliðsþjálfari tók í sama streng. ,,Mér finnst strákarnir hafa þjappað sér vel saman og ætla að láta Króata hafa fyrir hlutunum." Athygli vekur að króatíska landsliðið kom saman í Slóveníu fyrir landsleikinn og hefur æft þar undanfarna daga og gerir alveg fram að leik þar sem aðstaðan í Slóveníu er betri. Króatísku dagblöðin hafa eftir Zlatko Kranjcar, landsliðsþjálfara, að hans helsta áhyggjuefni sé að leikmenn sínir sínir taki íslenska landsliðið ekki nógu alvarlega. Það verði sitt helsta vandamál að leikmenn sínir vandmeti ekki andstæðngana. Þá segist Kranjcar órólegur yfir því úrhelli sem var í gær og er spáð fram yfir leik. Hann segir að Maksimir leikvangurinn, heimavöllur Dinamo Zagreb, geti breyst í drullusvað og Íslendingar hagnist á því. ,,Helst vildi ég að það yrði bara smá bleyta, það gerir íslenska markverðinum erfitt fyrir því það verður nóg að gera hjá honum," sagði Kranjcar. Árni Gautur er ekki sammála þessu en segist njóta þess besta að spila fótbolta þegar nóg sé að gera á milli stanganna. Heiðar Helguson æfði með íslenska liðinu í fyrsta skipti í Zagreb en hann var frá vegna smávægilegra meiðsla. Króatískir fjölmiðlar stilltu íslenska liðinu þannig upp að Hannes Þ. Sigurðsson, sem lék með ungmennalandsliðinu í gær, kæmi inn í byrjunarlið A landsliðsins, sem að sjálfsögðu er út í hött. Logi Ólafsson, landsliðsþjálfari, sagði að byrjunarliðið yrði tilkynnt á hádegi en leikaðferðin yrði 4-2-3-1. ,,Króatar eru með frábært lið og fyrirfram hefði ég talið þetta erfiðasta leik okkar í riðlinum. Við leggjum upp með agaðan varnarleik og að beita skyndisóknum. Æfingarnar hafa gengið vel og allir vita nákvæmlega hvert hlutverk sitt er í því leikkerfi sem við stillum upp," sagði Logi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×