Erlent

Fólksfækkun í Rússlandi

Fólki fækkar ört í Rússlandi á næstu árum og áratugum vegna snaraukinnar dánartíðni og stórlækkaðrar fæðingartíðni. Lundúnablaðið The Times greindi frá því um helgina að nú væru framkvæmdar fleiri fóstureyðingar í Rússlandi en börn fæðast í landinu. Á síðasta ári kváðu 1,6 milljónir fóstureyðinga að hafa verið tilkynntar þar, en barnsfæðingar voru um 1,5 milljónir. Jafnframt hafa meðallífslíkur rússneskra karlmanna lækkað niður í 58,8 ár, sem er 20 árum undir lífslíkum íslenskra karla. Á síðasta ári fækkaði íbúum Rússlands um nærri hálfa milljón og svo gæti farið, ef áfram heldur sem horfir, að Rússum fækkaði úr 143 milljónum nú í 77 milljónir árið 2050. Þar með yrðu vinnufært fólk of fátt til að halda efnahagslífi landsins gangandi. Vladimír Kulakov, varaforseti læknavísindaakademíu Rússlands og ráðgjafi forsetans Vladimírs Pútíns, segir þjóðina í miklum vanda. Um 10 milljónir Rússa á barneignaraldri væru ófærir um að verða foreldrar vegna hrossalækninga-fóstureyðinga, geislavirkni og alkóhólisma. Hin snarhækkaða dánartíðni er rakin til hruns í heilbrigðiskerfinu, áfengissýki og ofbeldisglæpa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×