Erlent

Skotbardagi við herskáa sjíta

Byssumenn hollir herskáa sjíaklerknum Muqtada al-Sadr veittu íröskum hermönnum á eftirlitsferð fyrirsát í austurhluta Bagdad í gærmorgun. Bandarískir hermenn komu til liðs við þá írösku í skotbardaga sem stóð í einn og hálfan tíma. Um átta árásarmannanna voru felldir. Þetta var í fyrsta sinn í nærri heilt ár sem kom til svo alvarlegra átaka í þessum borgarhluta, sem nefndur er Sadr-borg, en flestir íbúarnir þar eru fátækir sjíamúslimar. Annars staðar í Bagdad var brynvörðum peningaflutningabíl rænt með um 850.000 Bandaríkjadali innanborðs. Ræningjarnir drápu verðina. Þá var gerð sjálfmorðsbílsprengjuárás á bílalest sérsveitar íraska innanríkisráðuneytisins. Sjö liðsmenn hennar féllu og tveir vegfarendur. Spenna var viðvarandi á hernámssvæði Breta í Basra í Suður-Írak vegna handtökuskipunar öryggismálayfirvalda þar á hendur tveimur breskum hermönnum, sem talsmenn breska hersins segja að séu bornir röngum sökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×