Innlent

Handsömun katta

MYND/Stefán

Kettir voru fyrirferðamiklir á fundi borgarráðs í fyrradag. Á fundi borgarráðs voru bæði lögð fram drög að verklagsreglum um handsömun katta og drög að nýrri gjaldskrá um kattahald. Það er skemmst frá því að segja að hvort tveggja var samþykkt samhljóða.

Í tillögum frá umhverfisráði um verklagsreglurnar var meðal annars lagt til að gelda skuli alla fressketti eldri en sex mánaða sem gangi lausir utandyra. Ef meindýraeyðir handsamar ógeltan fresskött sem kominn er yfir umræddan aldur verður honum sleppt á staðnum, nema hann sé ómerktur eða hafi valdið ítrekuðu ónæði. Hafi sami ógelti köttur hins vegar verið handsamaður þrisvar verður hann fluttur í Kattholt við þriðju handsömun. Handsömunargjald, sem eingöngu verður innheimt hafi köttur verið fluttur í dýrageymslu, er 5000 krónur en innifalið í því er fóður og vistun fyrsta sólarhringinn.

Tekið er fram í verklagsreglunum að „meðalhófs" muni verða gætt við handsömun katta, og að dýrin verði eingöngu flutt í Kattholt verði markmiði samþykktar ekki náð með öðrum hætti. Þá kemur einnig fram að brugðist verði við öllum kvörtunum en meindýraeyðar muni meta hvort setja skuli út búr, þó ekki að eigin frumkvæði. Að lokum segir í drögum að verklagsreglunum að meindýraeyðar muni koma til með að sinna kvörtunum í þeirri röð sem þær berast, en þó þurfi að forgangsraða verkefnum þannig að tilfelli þar sem köttur er inni í íbúð nágranna þarf að setja í forgang. Undir þetta skrifar „skrifstofustjóri Skrifstofu neyslu og úrgangs".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×