Innlent

Síminn ósáttur

Erlend símafyrirtæki greiða lægra heildsöluverð fyrir símtöl viðskiptavina í net Og Vodafone en Síminn, segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Hluta símtala úr númerum Símans til Og Vodafone sé því beint í gegn um norkst símafyrirtæki, sem bjóði lægra heildsöluverð að neti Og Vodafone. Síminn gagnrýnir Póst- og fjarskiptastofnun fyrir að íhlutast ekki um heildsöluverð Og Vodafone. Jafnræðis sé ékki gætt milli símafyrirtækja. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að eftir að stofnunin hafi úrskurðað Og Vodafone markaðsráðandi á fjarskiptamarkaði hafi kostnaðargreining á heildsöluverði fyrirtækisins farið fram. Tölur Og Vodafone hafi ekki gefið ástæðu til að gera athugasemdir við gjaldskrána. Eva segir Og Vodafone ívilna eigin deildum og erlendum fjarskiptafyrirtækjum: "Á þetta hefur Síminn ítrekað bent síðastliðið eitt og hálft ár án þess að Póst- og fjarskiptastofnun taki ákvörðun í málinu." Pétur Pétursson, forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Og Vodafone, segir heildsöluverð til erlendra fjarskiptafyrirtækja ekki óeðlilega lægra en verð til Símans. Samningar við erlend fjarskiptafyrirtæki séu gerðir til langs tíma og í erlendri mynt: "Gengisþróun olli því til skamms tíma að verðið reyndist óvenju lágt fyrir sum þessara erlendu fjarskiptafyrirtækja. Landssíminn hefur síðan ákveðið að kaupa þennan aðgang að neti Og Vodafone af erlendu fjarskiptafyrirtækjunum og spara við það nokkra aura á mínútuna," segir Pétur: "Þetta er alþekkt hjá sjóræningjasímafyrirtækjum í útlöndum sem leita alltaf ódýrustu leiða til að flytja umferð sína á kostnað gæða þjónustunnar sem þau veita viðskiptavinum sínum." Póst- og fjarskiptastofnun vinnur að nýrri greiningu íslensks fjarskiptamarkaðar. Hrafnkell segir að í framhaldinu verði hugsanlega aðrar aðferðir nýttar við kostnaðargreiningu sem gæti leitt til íhlutunar um heildsöluverð. Það skýrist í vor. Eva segir of lengi beðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×