Erlent

Annarri vélinni grandað

Hryðjuverkamenn grönduðu í það minnsta annarri rússnesku farþegaþotunni sem fórst fyrr í vikunni. Íslamskur öfgahópur segist hafa rænt báðum vélunum og sprengt þær í hefndarskyni fyrir morð á múslímum í Tsjetsjeníu.  Rússnesk stjórnvöld hafa til þessa ekki viljað ganga svo langt að segja að hryðjuverk séu líklegasta skýringin á því að tvær farþegaþotur fórust á sama tíma. Það var fyrst í dag sem talsmaður rússnesku öryggisþjónustunnar, Nikolai Zakharov, greindi frá grunsamlegum vísbendingum. Hann segir að leifar sprengiefnis, sem talið er að sé hexógen, hafi fundist í braki annarrar vélarinnar, flugs Tu-154, en rannsókn stendur enn yfir. Sprengiefnið er hið sama og tsjetsjenskir hryðjuverkamenn hafa notað til árása. Yfirvöld hafa grunsemdir um að nokkrir farþegar tengist tsjetsjenskum hryðjuverkahópum. Íslamskur öfgahópur, sem ber sama nafn og hópur sem tengist al-Kaída, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir að fimm hryðjuverkamenn hafi verið um borð í hvorri vél, að þeir hafi rænt vélunum og beri ábyrgð á því að þær hafi hrapað. Sagt var að þetta væri gert í hefndarskyni fyrir morð á múslímum í Tsjetsjeníu. Vísbendingarnar eru þó allar bundnar við aðra vélina. Enn er með öllu óljóst hvað varð til þess að hin vélin hrapaði. Frá fyrsta degi hefur grunur leikið á að tsjetsjenskir hryðjuverkamenn bæru ábyrgðina og bent var á að leiðtogar aðskilnaðarhópa hefðu heitið því að valda uppnámi í aðdraganda kosninga í héraðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×