Innlent

Fólk farið að nýta 100% lán

"Fyrstu eignirnar seldust hér í gær þar sem gert var ráð fyrir 100% lántöku," sagði hann. "Þá er mjög eindregin þróun í þá átt, að fólk sé að kaupa dýrari eignir heldur en áður. Fólk sem áður var kannski að leita að eignum fyrir 14 - 16 milljónir, er jafnvel að kaupa í dag eignir fyrir 20 - 23 milljónir. Það merkilega er, að það stendur jafnvel uppi með léttari greiðslubyrði, miðað við að það taki 80 prósent lán, heldur en ef það hefði keypt 16 milljóna króna eign í gamla kerfinu þar sem hámark lána var 65% af langtímalánum." Björn Þorri sagði þetta helgast af því að í mjög mörgum tilvikum hefði fólk verið að fjármagna kaup sín 90 - 100%. Það hefði fengið hámarks lán frá Íbúðalánasjóði og fjármagnað rest með lífeyrissjóðslánum og bankalánum, auk lána með veði í fasteignum ættingja. "Ég held að menn séu að ofmeta að það verði einhverjar gríðarlegar breytingar með þessum nýju lánamöguleikum," sagði Björn Þorri. "Fólk hefur verið að skuldsetja sig allt að 100% á liðnum misserum og árum. Breytingin er sú, að þá þurfti að fara miklu flóknari og dýrari leiðir til þess. Nú auðveldar þetta miklu fleirum að gera þetta." Spurður hvort mynstrið í fasteignasölunni hefði breyst að undanförnu sagði Björn Þorri að litlar íbúðir seldust jafnt og þétt, en áherslan á stærri eignir hefði jafnframt aukist. Það þætti ekkert merkilegt í dag þótt einhver keypti sér hús fyrir 70 - 100 milljónir. Slíkar eignir seldust nú nánast í hverri viku. "Stærstu og glæsilegustu eignirnar hafa hækkað mikið í verði, þar sem Íslendingum sem eru verulega efnaðir hefur fjölgað mjög á síðustu 4 - 5 árum. Það leiðir til þess, að svigrúm skapast til hækkunar á venjulegum sérbýlum á bilinu 20 - 40 milljónir. Með þessum nýju lánum hefur orðið til kaupendahópur að síðarnefndu eignunum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×