Sport

Erfiðasti leikurinn á ferlinum

"Leikurinn var skemmtilegur en jafnframt sá erfiðasti sem ég hef nokkru sinni leikið," segir Guðrún Gunnarsdóttir, varnarmaður úr KR. Um síðustu helgi upplifði hún sína stærstu stund á ferlinum þegar háskólalið það sem hún spilar með úti í Bandaríkjunum, Notre Dame, sigraði háskólakeppnina eftir æsispennandi leik við Háskólann í Los Angeles. Úrslitaleikurinn vakti mikla athygli ytra enda áhuginn svo mikill á hann var sýndur um gervallt landið en það gerist eingöngu þegar um virkilega stóra íþróttaviðburði er að ræða. Fór hann fram í Norður Karólínu fylki en Guðrúnu varð vart um sel þegar liðið snéri heim til Indiana aftur. "Það var ótrúlegt að upplifa þessa stemmningu. Við komum aftur til baka í rútu og um leið og við nálguðumst borgina fengum við lögreglufylgd gegnum miðborgina og út á íþróttaleikvang. Okkur leið þarna eins og stórstjörnum tímabundið og fjölmargir sem komu og fögnuðu með okkur á íþróttavellinum. Þetta var heljarmikil upplifun." Leikurinn sjálfur var ekki í daprari kantinum og þurfti vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit eftir að staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma og framlengingu. Lið Notre Dame sigraði 4-3 eftir vítakeppnina. Guðrún lýkur námi við skólann í vor og býst við að koma heim þá og hefja atvinnuleit. "Með það í huga kom þetta á besta tíma enda minning sem ég mun eiga um ókomin ár."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×