Sport

Feðgin í fremstu röð

Gengi kvennaliðs Hauka í handbolta á þessari leiktíð hefur verið með miklum ágætum og hefur liðið unnið flesta leiki sína hingað til með sannfærandi hætti. Meðan erfitt er að draga ákveðna leikmenn liðsins út fyrir sérstaklega góðan árangur er ljóst að leikstjórnandi liðsins, Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir, hefur átt stóran hlut að máli. Ragnhildur er dóttir þjálfara liðsins, Guðmundar Karlssonar. Guðmundur um dótturina: "Hún er í hlutverki leikstjórnanda og hefur valdið því vel hingað til enda má kannski segja að hún hafi betri tengingu við hausinn á mér en gengur og gerist," segir Guðmundur Karlsson, þjálfari Hauka og faðir Ragnhildar. Hann notar lýsingarorðin sparlega hvort sem er um dóttur sína eða gengi liðsins enda veit hann sem er að mótið er rétt nýhafið og langur vegur eftir enn. "Hún er að skila sínu hlutverki vel eins og allt liðið hingað til. Það hefur gengið vel það sem af er en reyndar kom mér mjög á óvart að Haukum væri spáð efsta sætinu fyrir mótið því það eru fjölmörg önnur góð lið sem hafa að upplagi sama mannskap nú og þau höfðu áður. Við aftur á móti erum enn að mótast sem lið og eigum eftir að verða betri þegar fram líða stundir." Ragnhildur um föðurinn: "Það er alveg tvennt ólíkt að hafa hann sem þjálfara eða hafa hann sem pabba," segir Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir, leikstjórnandi kvennaliðs Hauka. Ragnhildur hefur staðið sig framar vonum og er meðal markahæstu leikmanna. Hún segir einu gilda hver þjálfi liðið en viðurkennir að hún viti yfirleitt upp á hár hvað karl faðir hennar fer fram á í hverjum leik. "Það gerir þetta ekkert erfiðara að hafa hann sem þjálfara en hann kemur fram við mig eins og aðra í liðinu og ég nýt engra forréttinda. Það kemur fyrir að við rífumst en það er eðlilegur hluti af leik sem þessum." Ragnhildur er nýútskrifuð úr framhaldsskóla og segist bera þá von í brjósti að fara út í atvinnumennsku sem fyrst. "Ég er staðráðin í að reyna fyrir mér erlendis ef möguleiki gefst og að því leyti er frábært að spila með Haukum því liðið er mjög gott og á eftir að verða enn betra eftir því sem við lærum betur hver á aðra. Svo spilar liðið vonandi í Evrópukeppninni einhvern daginn og það verður gott tækifæri til að koma sér á framfæri."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×