Sport

Orðaður við stórliðið Flensburg

Forráðamenn danska handknattleiksliðsins Aarhus GF segjast ætla að gera allt sem í sínu valdi stendur til ad halda í Róbert Gunnarsson, línumann liðsins og íslenska landsliðsins. Frammistaða Róberts með íslenska liðinu á heimsbikarmótinu í Svíþjóð sem og með Aarhus í dönsku úrvalsdeildinni í vetur hefur vakið áhuga stærstu liða Þýskalands og Spánar, en Róbert er langmarkahæsti leikmaður dönsku deildarinnar með tæp 10 mörk að meðaltali í leik, en lið Aarhus hefur komið gríðarlega á óvart í vetur og situr á toppi úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. Þá var Róbert einnig markahæsti leikmaður heimsbikarmótsins í Svíþjóð. Um áramótin mun Aarhus GF sameinast öðru handknattleiksliði bæjarins, AGF, og mun sá samruni styrkja fjárhag hins nýja félags til muna. Henrik Jakobsen, framkvæmdastjóri Aarhus GF, segir að fyrsta verk hins nýja félags verði að bjóða Róberti nýjan og betri samning. "Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að keppa við þá allra stærstu en við viljum gjarnan halda Róberti í herbúðum okkar og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess. Við vitum jafnframt að við getum ekki hindrað hann í að fara til stærra liðs í sterkari deild," segir Jakobsen, en þess má geta ad þýska stórliðið Flensborg er sagt eitt af mörgum sem líta hýrum augum til kappans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×