Innlent

Gríðarlegar tekjur af stangveiði

Tekjur af stangveiði hér á landi skila þjóðarbúinu allt að níu milljörðum króna á ári. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Umsvif stangveiða skapa um eittþúsund störf á ári og þær geta skipt sköpum um hvort byggð haldist á ákveðnum svæðum landsins. Landbúnaðarráðherra vill beita sér fyrir átaki til að efla stangveiðar í landinu. Í skýrslu Hagfræðistofnunar sem unnin var að beiðni Landssambands veiðifélaga kemur fram að beinar, óbeinar og afleiddar tekjur af stangaveiði íslenskra og erlendra veiðimanna eru á milli 8 og 9 milljarðar króna. Óðinn Sigþórsson, formaður landssambands veiðifélaga segir þetta mjög mikilvægar tekjur. Hann segir veiðar styðja við þúsund störf í landbúnaði. Í skýrslunni kemur fram að sums staðar eru tekjur af lax- og silungsveiði lífsnauðsynlegar til að byggð geti áfram dafnað. Óðinn segir þetta er mjög mikilvægan atvinnuþátt, til dæmis á Vesturlandi, þar sem að tekjur af stangaveiði séu um það bil 50% af hreinum tekjum í landbúnaði Á fundinum kom fram að um 60 þúsund Íslendingar stundi stangveiði í frístundum og að á síðasta ári hafi allt að 7 þúsund útlendingar komið hingað til lands til að veiða á stöng. Óðinn telur að auka megi enn frekar tekjur af stangaveiði, sérstaklega séu mikil tækifæri til að fjölga silungsveiðimönnum, jafnt íslenskum sem útlenskum. Hann segir það færast í vöxt að útlendingar nýti sér þennan afþreyingarmöguleika og þeir séu farnir að koma gagngert hingað til lands til þess að stunda stangveiði. Á fundinum var vakin athygli á því að landbúnaðarráðherra hafi beitt sér fyrir átaki í þágu hestsins og kindarinnar, og lýst var eftir átaki í þágu lax og silungs. Guðni Ágústsson svaraði því til að hann hefði mikinn áhuga á að beita sér fyrir slíku átaki í samstarfi við hagsmunaaaðila, enda væri um eina sterkustu atvinnugrein íslenskra sveita að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×