Sport

Tyson snýr aftur í hringinn

Mike Tyson, fyrrum heimsmeistari í þungavikt, snýr aftur í hringinn eftir 17 mánaða hlé og mætir hinum breska Danny Williams, í kvöld í Kentucky. Flestir líta á Williams sem fallbyssufóður en hann segist þó fullviss um að geta strítt Tyson og mæti hvergi banginn til leiks. Bardaginn verður sýndur beint á Sýn og ekki að efa að margir horfi á enda Tyson án efa langvinsælasti og langumdeildasti boxari heims. Ferillinn hjá Tyson er með þeim skrautlegri en hann varð yngsti þungaviktarheimsmeistari sögunnar árið 1985, aðeins 19 ára. Síðan þá hafa skipst á skin og skúrir en þó hafa skúrirnir verið öllu fleiri. Hann hefur þurft að dvelja í fangelsi vegna nauðgunar og margoft verið dæmdur í keppnisbann, til að mynda þegar hann beit vænan bita úr eyra Evanders Holyfields í frægum bardaga. Alltaf hefur hann þó náð að koma aftur og til að mynda endurheimti hann heimsmeistaratitilinn árið 1996 þegar hann pakkaði Bretanum Frank Bruno saman. Seinna sama ár missti hann síðan titilinn til Evanders Holyfields og þeir kappar mættust aftur árið eftir og þá var einmitt boðið upp á eyrnasmjattið. Eftir þessa tvo sögufrægu bardaga við Holyfield hefur Tyson ekki náð því að keppa aftur um sjálfan titilinn en þess í stað hefur hann barið fjölda minnipokamanna í spað. Það sem helst hefur hrjáð Tyson er andleg heilsa hans en þó nokkuð langt er síðan hann viðurkenndi að bryðja þunglyndislyfið Zoloft eins og brjóstsykur. Þá hafa afætur ýmiskonar herjað á Tyson og haft af honum nánast allan hans auð og nú er svo komið að hann er nánast gjaldþrota og býr í lítilli íbúð. Hvort Tyson eigi nóg eftir til að komast í tæri við titilinn að nýju er stór spurning. Ef þessi höggþyngsti boxari sögunnar er með líkamann og sálina í lagi er engin spurning að það er mögulegt; þetta tvennt hefur bara svo óskaplega sjaldan farið saman á síðastliðnum árum. Sjáum hvað setur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×