Innlent

4400 börn njóta stuðnings ABC

Yfir fjögur þúsund börn njóta stuðnings í gegnum ABC-hjálparstarf, þar af bættust eitt hundrað og tuttugu við nú í desember. Staðan er þannig að biðlisti er eftir að fá að styðja börn í Suður-Úganda. ABC-hjálparstarf er íslenskt hjálparstarf sem byggir á kristnum gildum og var stofnað árið 1988. Samtökin styðja börn í Úganda, á Filippseyjum og á Indlandi. Fólk getur stutt börnin með mánaðarlegum framlögum og orðið eins konar stuðningsforeldrar og eru myndir og upplýsingar um börnin á skrifstofu ABC. Guðrún Margrét Pálsdóttir, frumkvöðull ABC, segir að biðlisti sé eftir að fá að styðja börn í Suður-Úganda en von sé á fleiri börnum í stuðning í janúar. Í dag vantar stuðning í Norður-Úganda, á Filippseyjum og Indlandi. Aðspurð hvað skýri skort á börnum til að styðja í Suður-Úganda segir hún svo marga stuðningsaðila hafa bæst við að undanförnu, m.a. vegna þess að ABC-skólinn þar er mjög góður og vel sé búið að börnum í landinu. Núna bíða um 20 fjölskyldur eftir að fá að styðja barn, enda segir Guðrún að Íslendingar séu almennt tilbúnir í stuðning sem þennan. Yfir 4400 börn njóta stuðnings í dag, þar af bættust eitt hundrað og tuttugu við nú í desember og þeim fjölgar hratt. Allt stuðningsféð fer beint til barnanna og uppbyggingarstarfs þeirra vegna en rekstur skrifstofunnar og annars er fjármagnaður með öðru fé. Guðrún segir að flestir vilji styðja börnin til langframa og oft myndist góð tengsl á milli þeirra og stuðningsforeldranna. Fólk setji til dæmis mynd af barninu á ísskápinn heima hjá sér og telji það einn af fjölskyldunni en sumir kjósi að hafa þetta ópersónulegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×