Innlent

Knattspyrnuhöll á Reyðarfirði

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð eiga í viðræðum við Alcoa og Bechtel um kostnaðarþátttöku í nýju fjölnota íþróttahúsi á Reyðarfirði. Lausleg kostnaðaráætlun hljóðar upp á hálfan milljarð króna og ganga viðræðurnar út á að Alcoa og Bechtel greiði tæpar 100 milljónir króna. Glúmur Baldvinsson, forstöðumaður almannatengsla hjá Bechtel, segir að ákvörðunar sé að vænta fljótlega eftir áramót. "Alcoa og Bechtel hyggjast verja 1,3 milljónum dollara til að koma upp íþróttaaðstöðu fyrir starfsfólk sitt á Reyðarfirði. Viðræðurnar við bæjaryfirvöld snúast um það að við leggjum þá fjármuni í varanlegt íþróttamannvirki, sem ekki verður tekið niður aftur, og í staðinn fái starfsfólkið aðgang að íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu," segir Glúmur. Samkvæmt heimildum blaðsins stendur hugur bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð til að reisa sambærilegt hús og Bogann á Akureyri. Komi Alcoa og Bechtel að fjármögnun er talið líklegt að húsið verði reist á milli álversþorpsins og byggðarinnar á Reyðarfirði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×