Sport

Niður um 37 sæti á sjö mánuðum

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu lækkaði sjöunda mánuðinn í röð á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins sem var birtur í gær og er nú komið niður í 93. sæti á listanum. Fyrir þetta ár hafði íslenska landsliðið aldrei verið neðar en 88. sæti á listanum en tveir síðustu mánuðir hafa verið þeir tveir verstu í sögu íslenska landsliðsins á þessum lista. Meðal þjóða sem við höfum misst upp fyrir okkur á síðustu mánuðum eru þjóðir eins og Tógó, Angóla, Kenía, Gvæjana og Sýrlandi sem öll teljast á mælikvarða FIFA vera með betri knattspyrnulandslið en Íslendingar í dag. Íslenska liðið komst hæst í 42. sæti í janúar 2000 en var í 58. sæti í ársbyrjun á umræddum lista og hefur fallið um heil 35 sæti á þessum tólf mánuðum, þar af niður um 37 sæti frá því í maí þegar íslenska liðið var í 56. sæti á listanum. Íslenska landsliðið hefur nú farið niður um sæti á listanum sjö mánuði í röð en engin önnur þjóð hefur fallið hraðar niður listann á þessu ári eða fallið niður listann svo marga mánuði í röð. Næst okkur í falli niður FIFA-listann af Evrópuþjóðunum kemur landslið Skotlands sem hefur fallið um 32 sæti á árinu. Íslenska landsliðið vann aðeins einn af níu landsleikjum sínum á árinu, töpin urðu sex, þar af fimm þeirra í sjö landsleikjum frá því í lok maí. Af gengi hinna liðanna í riðli Íslands er það frétt að Svíar hækka sig um tvö sæti upp í það 13., Króatar og Búlgarir standa í stað, Króatar í 23. sætinu og Búlgarir í því 37. Ungverjar eru á mikilli siglingu og fara upp um tíu sæti upp í það 74. en Maltverjar lækka síðan um tvö sæti og fara niður í 134. sæti listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×