Innlent

Óttaðist ekki um líf sitt

Íslenskir þingmenn voru hætt komnir þegar öryggi í flugstjórnarklefa flugvélar British Airways brann yfir. Fjármálaráðherra var í flugvélinni og fimm íslenskir þingmenn. Vélinni var lent hastarlega á fyrsta mögulega stað á Heathrow-flugvelli og sakaði engan en að sögn þingmannanna var áhöfn vélarinnar óstyrk. Vélin var að koma frá Genf. Sigurður Kári Kristjánsson var einn þeirra þingmanna sem voru um borð. Hann segist ekki hafa áttað sig á því að mikil hætta væri yfirvofandi en varð þó var við að eitthvað var að. „Öryggisráðstafanir um borð voru mun harðari. Okkur var skipað til sætis og látin gera ýmislegt sem gekk lengra en gengur og gerist venjulega,“ segir Sigurður Kári. Hann kveðst líka hafa heyrt það á flugfreyjunum. Eftir lendinguna kom svo staðfesting á því að ekki var allt með felldu. Vélinni var lent tiltölulega langt úti á flugbrautinni og þegar hún hafði stöðvað komu slökkviliðsbílar aðvífandi að sögn Sigurðar Kára. Spurður hvort hann hafi óttast um líf sitt segir þingmaðurinn svo ekki vera, enda hafi hann ekki áttað sig á alvarleika aðstæðnanna. Einhverjir farþegar sögðu að kviknað hafi í öðrum hreyflinum en Fréttablaðið greinir frá því að öryggi í flugstjórnarklefa hafi brunnið yfir. Sigurður Kári segist ekki hafa orðið var við reyk í vélinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×