Innlent

Ný og öflug músagildra

Ný tegund músagildru, sem hönnuð var í Súðavík, hefur reynst svo öflug að dæmi eru um að yfir þrjú hundruð mýs hafi veiðst í hana á tveimur mánuðum. Músagildruhönnuðurinn heitir Jón Ragnarsson. Hann er með eina slíka gildru við húsið sitt en hann segist hafa fengið hugmyndina fyrir tveimur árum þegar músagangur fór að aukast. Mýsnar drepast við það að drukkna í vökva í botni gildrunnar sem er eins konar kassi með opi á hliðinni og beitu í hinum enda kassans. Frá opinu, sem er í nokkurra sentímetra hæð yfir botninum, liggur mjór teinn yfir í agnið. Á miðjum teininum er hins vegar einskonar vegasalt sem veldur því að músin missir jafnvægið og dettur niður í vökvann. Utanhúss í frosti hefur Jón frostlög eða saltpækil í gildrunni en innanhúss dugar vatn. Hann lokkar mýsnar inn með agn sem inniheldur mikið af rotvarnarefnum svo það skemmist ekki, t.a.m. beikoni.  Jón er nú farinn að fjöldaframleiða gildrurnar enda er orðsporið farið að berast. Hann segir eina konu hafa t.d. fengið 307 mýs í gildruna á um tveimur mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×