Innlent

Skíðasvæði víða opin

Skíðasvæðin í Bláfjöllum og Hamragili voru opnuð í morgun. Friðjón Árnason, staðgengill forstöðumanns skíðasvæðisins í Bláfjöllum, segir tvær diskalyftur opnar í Suðurgili og færið sé gott því eftir harðfenni undafarið hafi þunnur snjór fallið í nótt og brekkurnar því mjúkar. Veðurblíðan er svo ekki til að skemma fyrir. Þetta er þriðji dagurinn í vetur sem hægt er að renna sér á skíðum í Bláfjöllum. Þar var opnað í fyrsta sinn síðasta laugardag og svo var opið á þriðjudag. Í Hamragili í Hengli er einnig búið að ræsa. Þar eru allar lyftur opnar og var tveggja stiga frost þar í morgun. Utan af landi berast einnig fréttir af opnun skíðassvæða. Þannig var skíðasvæði Ísfirðinga í Tungudal opnað í morgun í fyrsta skipti á þessum vetri. Þar verður opið til klukkan þrjú á svigsvæðinu og á svipuðum tíma á göngusvæðinu. Frábært færi er á staðnum, fimm stiga frost og blíða, léttskýjað og bæði leiðir og brautir troðnar.  Skíðasvæði Siglfirðinga var sömuleiðis opnað í dag. Þar snjóaði mikið í fyrrinótt og einnig í gær og er nú kominn þar mikill og góður snjór. Skíðasvæðið verður opið frá klukkan eitt og fram eftir degi. Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið til fjögur í dag, þar er frábært færi og veður eins og best verður á kosið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×