Sport

Dudek betri en Kirkland

Mikið hefur verið skrafað um það mikla markvarðavandamál innan herbúða Liverpool en liðið hefur tapað allnokkrum stigum þennan veturinn á markmannsklúðri, nú síðast hjá Jerzy Dudek gegn Portsmouth. En merkilegt nokk, sé tölfræðin skoðuð kemur í ljós að Pólverjinn er mikið mun betri milli stanganna en Chris Kirkland. Samkvæmt Optastats sem heldur utan um tölfræði í úrvalsdeildinni er Dudek meðal þeirra átta bestu prósentulega sé skoðuð varin skot. Dudek hefur 74 prósent hlutfall en félagi hans hjá Liverpool, Kirkland, er aðeins með 48 prósent. Dudek hefur þannig aðeins fengið á sig sex mörk í sjö leikjum en Kirkland ein þrettán í tíu leikjum. Sé listinn skoðaður nánar kemur í ljós að besti markvörðurinn þar sem af er tímabilinu er Kiraly hjá Crystal Palace. Hefur hann varið 81 prósent af þeim skotum sem komið hafa á mark Palace í vetur en næstur honum, einnig með 81 prósent en færri skot á sig, kemur markvörður Manchester United, Roy Carroll. Einnig er Jens Lehmann, markvörður Arsenal, neðarlega í hópnum með 62 prósent og er því auðveldara að skilja þá ákvörðun Wengers að taka hann úr umferð fyrir hinn spænska Almunia.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×