Sport

Atli þjálfar ekki Keflavík

Atli Eðvaldsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, mun ekki stýra liði Keflavíkur í Landsbankadeild karla á komandi tímabili en samningaviðræður á milli hans og stjórnar Keflavíkur voru komnar nokkuð á veg. Atli staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið í gær og sagði að þótt tilboðið væri spennandi þá hefði þessi tímapunktur ekki hentað. "Það er ekkert launungarmál að samingaviðræður voru byrjaðar og tilboðið um að þjálfa Keflavík var mjög freistandi en ég þarf að klára ákveðin persónuleg mál áður en ég get farið að þjálfa á nýjan leik og því gaf ég þetta frá mér," sagði Atli sem bætti við að sá sem tæki við liði Keflavíkur væri heppinn enda liðið mjög gott og stjórnin skipuð úrvalsmönnum. Atli sagðist þó hafa fullan hug á því að þjálfa á nýjan leik en að tímapunkturinn yrði að vera réttur. "Þetta er baktería sem maður losnar ekki svo auðveldlega við. Ég hef haft mjög gott af þessari hvíld og það er öllum hollt, á einhverjum tímapunkti, að stíga út og horfa á fótboltann að utan. Það gerir manni gott og ég hef séð marga hluti sem ég sá ekki þegar ég var í hringiðunni." Atli hefur ekkert komið nálægt þjálfun síðan hann hætti með landsliðið í maí 2003 og algjörlega fallið úr kastljósi fjölmiðlanna. Hann sagði það ekki hafa verið ásetning hjá sér og hann hefði ekki verið orðinn þreyttur á því að vera alltaf í umræðunni. "Voru ekki allir búnir að fá upp í kok af mér," spurði hann á móti. Atli hefur stýrt ÍBV og KR í efstu deild og gerði KR að Íslands- og bikarmeisturum árið 1999. Hann þjálfaði einnig HK og Fylki í 1. deildinni. Eftir afsvar Atla er ljóst að stjórn Keflavíkur mun setja allan sinn þunga í að ganga frá samningi við Guðjón Þórðarson hið allra snarasta. Guðjón er reyndar í jólagjafainnkaupum í Englandi eins og sakir standa en er væntanlegur heim á næstu dögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×