Lífið

Baráttan um bóksöluna

Bóksalan fyrir þessi jólin er nýhafin fyrir alvöru og bækur, stórar og smáar, streyma úr hillum og af borðum verslananna. Líkt og síðustu ár fást söluvænlegustu bækurnar í stórmörkuðunum og hefur borðum með þeim verið komið fyrir inn á milli kjötborða og mjólkurkæla. Drjúgir afslættir eru gefnir af jólabókunum og kaupendum fellur vitaskuld vel að þurfa að borga sem minnst. Ekki er óalgeng sjón að sjá innkaupakerrur hlaðnar bókum í bland við kjötfars, kartöflur og klósettpappír. Á tímum hafta og helsis þurfti sérstakt leyfi upp á vasann til að fá að selja bækur. Bókaútgefendur veittu leyfin og gættu þess að fjöldi útgefinna leyfa væri í samræmi við íbúafjölda á hverjum stað. Þetta fyrirkomulag lagðist af fyrir mörgum árum en sumum bóksölunum verður hugsað til þess nú þegar hver sem er getur selt hvað sem er, hvenær sem er, fyrir hvað sem er. Gagnrýni þeirra á stórmarkaðasöluna felst fyrst og fremst í þeirri staðreynd að hún fer aðeins fram síðustu þrjár vikur fyrir jól. Eftir það standa nokkrar kiljur og einstaka barnabækur við kassana. Stórmörkuðunum er sumsé legið á hálsi fyrir að fleyta rjómann ofan af. Sérverslunum með bækur hefur fækkað talsvert en samkvæmt nýjustu Bókatíðindum eru þær nú á milli 30 og 40 á landinu öllu. Útsölustöðum bóka fjölgar um annað eins fyrir jólin.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.