Sport

Ekki á forgangslista

Hugmyndir eru uppi um að byggja yfirbyggða 25 metra langa keppnislaug við Vesturbæjarlaugina í Reykjavík og stækka þannig og bæta núverandi aðstöðu sundgesta. Er í tillögunum gert ráð fyrir að erlendir aðilar, sem hug hafa á að setja samhliða upp fullkomna líkamsræktaraðstöðu, komi að fjármögnun verkefnisins. Tillögur þessar hafa þegar komið fyrir stjórn Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur en þar er ekki talið að um forgangsverkefni sé að ræða. Samkvæmt nýlegu deiliskipulagi er ekkert því til fyrirstöðu að hefja byggingu á reitnum en eins og sakir standa er forgangsatriði að opna glænýja 50 metra innisundlaug í Laugum í Laugardal en sú opnun er fyrirhuguð strax í janúar. Þeirri laug er ætlað að vera þjóðarleikvangur Íslendinga í sundi í framtíðinni. Það eru sænskir aðilar sem sýnt hafa áhuga á að koma að verkefninu ef af verður, þeir hinir sömu og reka líkamsræktarstöð í Sundlaug Kópavogs, sem gengið hefur framar vonum. Anna Kristinsdóttir, stjórnarformaður ÍTR, telur að samkeppnisyfirvöld gætu þó sett strik í þann reikning enda yrði þá væntanlega erfitt fyrir aðra aðila að bjóða viðlíka þjónustu þegar fram í sækir. Að hennar mati er ekki þörf á nýrri laug í vesturbæ Reykjavíkur að svo stöddu heldur mörg önnur brýnni verkefni sem fyrst ætti að huga að.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×