Sport

Serbi finnur Þróttarann í sér

Knattspyrnufélagið Þróttur hefur samið til tveggja ára við serbneskan leikmann, Dusan Jaic að nafni, um að hann leiki með liðinu í efstu deild næsta sumar. Jaic er 25 ára gamall varnarmaður sem leikið hefur með spúttnikkliði Skála í Færeyjum síðustu tvö ár. Skála-liðið þurfti að fara í aukaleik um sætið í deildinni sumarið 2003, hélt sæti sínu og endaði síðan í 3. sæti deildarinnar síðasta sumar. Skálaliðið var sem dæmi eina liðið sem náði að vinna meistara HB í deildarkeppninni en HB fékk sjö stigum meira en næsta lið í 18 leikja deild. Áður en Dusan hélt í norðurvíking til Færeyja lék hann með liði heimabæjar síns í Serbíu, Vozdovac, og síðan Borac og Hajduk í Bosníu. Dusan var fyrirliði Vozdovac síðustu tvö árin sem hann lék með liðinu. Dusan kom hingað til lands í lok nóvember til að kynna sér aðstæður hjá íslenskum liðum og leist svo vel á allar aðstæður hjá Þrótti að hann ákvað að gerast Þróttari. Fann Þróttarann í sér eins og Þróttar segja í fréttatilkynningu sinni en Þróttarar spila í Landsbankadeildinni næsta sumar eftir eins árs dvöl í 1. deildinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×