Sport

Zola segir sorrí

Gianfranco Zola, fyrrum leikmaður og sá dáðasti allra tíma hjá Chelsea sem nú leikur með Cagliari í Serie A í ítölsku knattspyrnunni er alltaf sami herramaðurinn inni við beinið og er fyrstur til að viðurkenna mistök sín. Zola lét nokkur vafasöm orð falla í garð Juventus í viðtali við ítalska fjölmiðla í síðustu viku. Hann kallaði heigla, þá leikmenn Juventus sem hefðu notað bönnuð fíkniefni, í kjölfar dóms sem féll á dögunum þegar læknir Juve, Riccardo Agricola, hlaut fangelsisdóm fyrir að hafa gefið leikmönnum ólögleg lyf. Ummæli Zola féllu í grýttan jarðveg svo vægt sé til orða tekið eg meðal þeirra sem gangrýndu Zola fyrir ummælin er Silfurrefurinn, Fabrizio Ravanelli, fyrrverandi leikmaður Juventus. "Ég skil ekki hví maður eins og Zola skuli geta sagt nokkuð þessu líkt. Juve er saklaust. Dómurinn kom mér mjög svo á óvart." sagði Ravanelli en fastlega er búist við að Juventus áfrýji dómnum. Zola dauðsér nú eftir ummælum sínum og baðst opinberlega afsökunar í ítölsku pressunni í dag. "Ég horfði aftur á viðtalið við mig og verð að viðurkenna að ég hljóp aðeins á mig. Ég varð frekar æstur eins og ég á til að verða þegar rætt er um þennan vírus sem dópið er. Ég er alls ekki á móti Juventus heldur dópinu. Hugsanlega olli ég leikmönnum Juve skaða með þessum orðum mér þykir það leitt. Ég biðst afsökunar á því að hafa farið yfir strikið." sagði hinn prúði Zola sem skoraði tvö mörk fyrir Cagliari í sigurleik gegn Chievo um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×