Sport

Narfi grillaði SA

Lið Skautafélags Akureyrar tapaði stórt fyrir nágrönnum sínum, Narfa frá Hrísey, 3 - 11 þegar félögin áttust við í íshokkíleik á föstudagskvöldið. Er ár og dagur síðan Akureyringarnir lutu svo í ís en hafa ber í huga að í lið þeirra vantaði þrjá lykilleikmenn sem voru í banni eftir mikinn hasar í leik þeirra við Björninn um síðustu helgi. Þessi sigur Narfa þýðir að slagurinn á toppi Íslandsmótsins harðnar til muna. Skautafélag Reykjavíkur er enn á toppnum með níu stig en skammt undan er norðanmenn í SA með sjö stig og nýliðar Narfa með sex. Lið Bjarnarins úr Grafarvogi rekur lestina eins og sakir standa með fjögur stig eftir sex leiki. Hvert félag spilar átján leiki á tímabilinu og því nóg eftir enn. Lið SA og Narfa áttust einnig við í gærkvöldi en úrslit lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×