Sport

Tveir Keflvíkingar til Kóreu

Keflvíkingarnir Þórarinn Kristjánsson og Hörður Sveinsson héldu í morgun af stað áleiðis til Suður-Kóreu þar sem þeir verða til reynslu hjá kóreska liðinu Busan I´cons í vikutíma. Þeir fljúga fyrst til London, svo til Seoul og og að lokum til Busan en ferðalag þeirra félaga tekur tæpan sólarhring. "Þetta leggst bara þrævel í mig. Þetta er mjög spennandi dæmi og svo sannarlega ekki þess virði að sleppa því," sagði Þórarinn í samtali við Fréttablaðið í gær en hann var í óðaönn að pakka ofan í tösku fyrir ferðina. Busan I´cons er frekar stórt félag í Suður-Kóreu en þjálfari liðsins er Ian Porterfield sem hefur meðal annars þjálfað Chelsea og Aberdeen en hann tók við skoska liðinu er Alex Ferguson fór til Man. Utd. Þeir leika síðan á glæsilegum velli sem notaður var í heimsmeistarakeppninni 2002 og því ekki hægt að kvarta yfir aðstæðum. Porterfield fékk spólu af þeim félögum frá Gunnlaugi Tómassyni umboðsmanni og leist nógu vel á til þess að bjóða þeim út til æfinga. "Ég veit voða lítið hvað býður okkar þarna úti," sagði Þórarinn. "Ég hef verið að reyna að kynna mér þetta á netinu, skoða heimasíðu félagsins og svona en er ekkert rosalega miklu nær. Annars skilst mér að fótboltinn sem er spilaður þarna er svipaður og er spilaður í Hollandi og Belgíu. Gæðin eru því alveg þokkaleg en þess utan veit ég ákaflega lítið um þetta lið og boltann þarna." Kunnugir menn segja að það sé nokkuð vel borgað í Kóreu og Þórarinn segist ætla að skoða það alvarlega fari svo að honum verði boðinn samningur hjá félaginu. "Ég myndi svo sannarlega skoða það vel. Svona tækifæri gefst ekki oft og það breytir engu þótt maður taki eitt ár þarna. Maður yrði bara reynslunni ríkari," sagði Þórarinn en Gunnlaugur, umboðsmaður þeirra félaga, segir að möguleikar á samningi séu nokkuð góðir. "Hann sá spóluna þeirra og var nokkuð spenntur. Í það minnsta nógu spenntur til þess að fá þá út til þess að geta skoðað þá almennilega," sagði Gunnlaugur en þess má geta að nokkrir enskir leikmenn hafa leikið með félaginu eins og Chris Marsden, fyrrum leikmaður Southampton.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×