Sport

Lætur ekki deigan síga

"Mér líður mun betur núna og er farin að anda léttar en ég gerði þegar þessi ósköp dundu yfir," segir Ragnheiður Ragnarsdóttir, sunddrottning úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Ragnheiður er á batavegi eftir slæma byltu á hálkubletti í vikunni sem varð til þess að hún þríbrotnaði á ökkla. Hún verður klár í slaginn á ný eftir sex vikur. Óhappið átti sér stað þegar Ragnheiður var á leið í skóla á þriðjudagsmorgun en meiðsl hennar þýða að hún tekur ekki þátt í Evrópumeistaramótinu í sundi sem fram fer í næsta mánuði. "Sem betur fer er það eina mótið sem ég missi af þar sem læknar segja að aðgerðin sem ég gekkst undir í kjölfar slyssins hafi gengið afar vel og ég á að geta hafið æfingar á ný um leið og ég losna við gifsið eftir sex vikur." Í aðgerðinni var ökkli Ragnheiðar skrúfaður saman á þremur stöðum en að sögn Ragnheiðar á það ekki að há henni á neinn máta þegar hún stingur sér til sunds að nýju. "Ef þetta grær eins og það á að gera eiga læknarnir ekki von á slíku og ég fyrir mitt leyti ætla út í laug við fyrsta tækifæri enda stórmót fram undan á næsta ári sem ég vil taka þátt í og reyna að standa mig vel. Það þýðir að ég verð að vinna upp þann tíma sem mun tapast frá æfingum. Kosturinn við þetta er þó sá að ég er komin í jólafrí á undan áætlun." Tveir stórviðburðir fara fram hjá íslensku sundfólki á næsta ári. Í júníbyrjun fara fram Smáþjóðaleikarnir í Andorra og mánuði síðar hefst svo Heimsmeistaramótið í sundi í Montreal í Kanada. "Ég ætla mér að standa mig vel á þessum mótum báðum og ég er viss um að ég get unnið upp þann tíma sem ég missi meðan ég næ mér eftir aðgerðina. Ég læt mitt ekki eftir liggja þegar kemur að þessum tveimur mótum." albert@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×