Sport

Fimleikafólkið með silfur heim

Íslenska kvennalandsliðið í fimleikum náði mjög góðum árangri á Norður-Evrópumótinu í fimleikum sem fram fór í Nakskov í Danmörku um helgina. Íslensku stelpurnar náðu öðru sætinu í liðakeppninni og þá vann hin stórefnilega Kristjana Sæunn Ólafsdóttir tvo Norður-Evrópumeistaratitla þegar hún sigraði í úrslitum í gólfæfingum og stökki. Auk þess varð Sif Pálsdóttir í öðru sæti í fjölþraut á laugardaginn þar sem Kristjana Sæunn varð fjórða og Inga Rós Gunnarsdóttir sjöunda. Sif og Kristjana háðu þar harða keppni en mistök Kristjönu á slá urðu henni dýrkeypt. Hún mætti hins vegar klár í slaginn í gær og vann glæsilega sigra á gólfi og í stökki. Viktor Kristmannsson náði bestum árangri í karlaflokki með því að hafna í 3. sæti á bæði bogahesti og tvíslá en hann var einnig efstur í fjölþrautinni hjá strákunum þar sem hann endaði í 10. sæti. Á mótinu keppa auk þeirra lið frá Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, Skotlandi, N-Írlandi og Írlandi. Árangur stúlknanna er mjög eftirtektarverður þar sem þær fara upp um tvö sæti á milli móta en þær höfnuðu í 4. sæti á sama móti í fyrra. Árangur keppendanna sem kepptu í úrslitum: Sif Pálsdóttir varð í þriðja sæti á slá með 7,40, fjóðra sæti á gólfi með 7,475 og sjöunda á tvíslá með 6,7 stig. Kristjana Sæunn varð einnig í öðru sæti á slá með 7,6 stig og í sjötta sæti á tvíslá með 7,05 stig. Harpa Snædís Hauksdóttir varð í sjöunda sæti á stökki með 7,95 stig. Gunnar Sigurðsson varð í sjötta sæti á stökki með 8,0 stig. Róbert Kristmannsson hafnaði í sjöunda sæti á bogahesti með 7,75 stig í einkunn. Tveir keppendur fóru á mótið en gátu ekki keppt, annars vegar Hera Jóhannesdóttir vegna veikinda og hins vegar Jónas Valgeirsson vegna meiðsla í upphafi móts. Rúnar Alexandersson keppti ekki á mótinu. Kristjana Sæunn hefur slegið í gegn að undanförnu en á dögunum vann hún til þriggja gullverðlauna á alþjóðlegu fimleikamóti í Svíþjóð og það er ljóst að íslenskar fimleikastelpur eru farnar að sækja í sig veðrið á erlendri grundu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×