Innlent

Hafði ekki hugmynd um samráðið

Kristján Loftsson, stjórnarformaður Olíufélagsins Esso til margra ára, segist enga hugmynd hafa haft um hið nána samráð olíufélaganna og það hafi komið sér gjörsamlega í opna skjöldu. Hann segir Samkeppnisstofnun brjóta fyrirheit sem gefin voru, þegar Olíufélagið féllst á samstarf við að upplýsa málið, um að fara ekki með mál starfsmanna til lögreglu. Esso varð fyrst olíufélaganna til þess að taka upp samstarf við samkeppnisstofnun en setti þó þrjú skilyrði, eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær. Kristján Loftsson staðfesti í dag hver þessi skilyrði voru. Þau hafi verið að Olíudreifing gæti starfað áfram, að unnt væri að slá af sektunum ef menn vinni með samkeppnisyfirvöldum, sem og að þeir starfsmenn sem myndu hjálpa til við að flýta fyrir rannsókninni yrðu ekki ákærðir til lögreglunnar að frumkvæði samkeppnisstofnunar. Kristján segir að Samkeppnisstofnun hafi gengið að þessum skilyrðum á sínum tíma, en svo ekki staðið við þau þegar á hafi reynt. Kristján telur Samkeppnisstofnun hafa brotið þannn hluta samkomulagsins að fara ekki með málið til lögreglu. Kristján hefur verið stjórnarformaður Olíufélagsins hf. og nú Kers, eins og það heitir nú, undanfarin átta ár, og var áður stjórnarmaður. Margir spyrja hver staða stjórnarmanna sé. Kristján segist ekki eiga von á því að sæta ákæru, enda hafi þetta allt saman komið sér í opna skjöldu eins og fleirum. Hefði hann haft grun um samráðið hefði hann beitt sér gegn því. Það eina sem hann hafi vitað um hafi verið samrekstur bensínstöðva sem öll þjóðin vissi um. Kristján kveðst afar ósáttur við sektir og úrskurð Samkeppnisráðs. Hann segir sektirnar út úr öllum kortum og reikninga ekki standast í mörgum tilvikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×